Bygg – Skortur á næringarefnum
Skortur á köfnunarefni (N)
Einkenni köfnunarefnisskorts: Einkenni sjást fyrst á eldri blöðum. Fölvasýki, gulnun á blöðum og skertur vöxtur.
Skortur hefur neikvæð áhrif á heilbrigði plantnanna. Smærri blöð og daufgrænn eða gulleitur blær.
Einkenni sjást fyrst í eldri blöðum sem verða gul og visna eftir því sem skortur verður meiri. Alvarlegur skortur á köfnunarefni veldur hrörnun plöntunnar, minni fræ og ax, lélegri spírun og þ.a.l. lakari uppskera.
Sum einkenni köfnunarefnisskorts getur svipað til skorts á brennisteini, lágs sýrustigs og rótarskemmdum og þarf því frekari greiningu til að meta ástæðu lakari uppskeru.
Skortur á fosfór (P)
Einkenni fosfórsskorts: Skertur vöxtur plantna, fjólublár blær á blöðum og þau eru minni. Eldri blöð sýna einkenni fyrst og byrja að visna of snemma. Fosfórskortur á yngri plöntum kemur fram í fjólubláum blæ á stilk. Skertur vöxtur axa.
Eldri blöð á sumar/voryrkjum geta sýnt rauðan/fjólubláan lit í köldu veðri. Rótar- og stöngulskemmdir eða léleg jarðvegsskilyrði geta valdið svipuðum einkennum. Upptaka fosfórs skerðist mikið ef sýrustig jarðvegs er lágt.
Skortur á kalíum (K)
Einkenni kalíumskorts: Ung blöð sýna blágrænan blæ, eldri blöð visnuð á enda og brúnum, smám saman drepst blaðið alveg. Vöxtur plöntunnar takmarkast þar sem stöngulbútar verða styttri eftir því sem skortur verður alvarlegri. Kalíumskortur skerðir vöxt blaða enn meira en fosfórskortur.
Eitt mögulegt einkenni kalíumskorts eru gular/hvítar rendur eða blettir á blöðum.
Skortur á magnesíum (Mg)
Einkenni magnesíumskorts: Eldri blöð verða daufgræn (fyrst á endum og færist neðar) með blettum í blaðgrænu (auðvelt að sjá þegar blöðum er haldið upp við ljós). Ljósar rendur á blöðum. Smáar, ljósar freknur birtast yfir blaðið. Blaðendar og brúnir byrja að visna. Vöxtur plöntunnar skerðist.
Skortur á kalki (Ca)
Einkenni kalkskorts: Flaggblað er snúið/krullað. Sprungur eftir miðjum ungum blöðum.
Skortur á brennisteini (S)
Einkenni brennisteinsskorts: Fjöldi og stærð fræja á axi takmarkast. Plöntur eru gulleitar og skertur vöxtur. Áhrif sjást fyrst á yngri blöðum. Plantan nær ekki fullum vexti og ax er smærra. Neikvæð áhrif á uppskerumagn.
Skortur á köfnunarefni og rótarskemmdir geta valdið svipuðum einkennum og þarf frekari sýnatöku til að greina vandamálið.
Skortur á bór (B)
Einkenni bórskorts: Lauf plöntunnar eru örlítið vansköpuð, stilkur óvenju þykkur og oft deyr sprotinn. Ax getur verið frælaust eða mjög stutt með mjög fáum fræjum og snúnum týtum.
Bór skortur er að verða algengari í korni. Þó bórþarfir plantna sé lágar miðað við önnur snefilefni, þá mun bórskortur valda því að axið er minna sem þýðir lakari uppskera. Bór ferðast ekki innan plöntunnar og er því nauðsynlegt að plantan hafi aðgang að því yfir allt vaxtartímabilið, sérstaklega í myndun og þroska axa.
Skortur á kopar (Cu)
Einkenni koparskorts: Ax plöntu sem þjáist af koparskorti er oft fast í slíðri og kemur upp úr slíðrinu með hvítum endum og engar týtur. Vægari einkenni eru sveigð öx sem þroskast ekki á eðlilegan máta og ná ekki réttum lit.
Plönturnar eru með þurra, hvíta og snúna/krullaða blaðenda. Ung blöð visna á endunum, á meðan blaðfótur helst dökkgrænn.
Vöxtur plöntunnar skerðist.
Mikill þurrkur, frost og skordýraeitur getur einnig valdið því að fræ bera ekki týtur.
Skortur á járni (Fe)
Einkenni járnskorts: Fölnun blaða á milli æðastrengja með augljósum gul-grænum röndum á yngri blöðum. Ef járnþarfir eru ekki uppfylltar verður allt blaðið gult og fölnun fer líka að sjást á eldri blöðum.
Skortur á mangan (Mn)
Einkenni manganskorts: Blöð plantnanna eru með fölnaða bletti og rendur sem verða gráar/hvítar til brúnar og dreifa svo úr sér. Einkenni sjást á yngri blöðum miðlægt. Blöðin eru beygluð/brotin þegar fölnunin er alvarleg.
Algengt er að þegar horft er yfir túnin sjáist ljósgrænir blettir, þá eru stundum dekkri renndur þar sem dekk vinnuvéla keyrðu. Ástæðan fyrir því er þjöppun jarðvegs þar sem oxun mangans er minni.
Vöxtur plantna er skertur.
Manganskortur ýkist þegar veðurfar er kalt/blautt. Plöntur eru viðkvæmari fyrir manganskorti þegar sýrustig jarðvegs er óhagstætt, loftraki er meiri eða jarðvegur er laus. Oft sjást einkenni snemma að vori þegar hitastig er lágt.
Skortur á mólýbden (Mo)
Einkenni mólýbdenskorts: Blöð plantna fölna og vöxtur er skertur. Þegar líður á byrja blöðin að brotna niður. Gulnun blaða.
Skortur á mólýbden sýnir svipuð einkenni og skortur á köfnunarefni.
Skortur á sinki (Zn)
Einkenni sinkskorts: á fyrstu tveimur myndunum eru eldri blöð með ljósbrúna bletti með dekkri brúnum. Litur plantnanna er daufari og blöðin eru með fjólubláann blæ. Fölnandi blettir á eldri blöðum. Skertur vöxtur þar sem skortur á sinki hefur áhrif á ljóstillífun. Stöngulbútar eru styttri.
Fölnun á milli æðastrengja.